Áhrif Lúthers. Siðaskipti, samfélag og menning í 500 ár

Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs, Margrét Eggertsdóttir ritstjóri, Hjalti Hugason ritstjóri og Arnfríður Guðmundsdóttir, forseti Guðfræði- og heimspekideildar.

Rannsóknarverkefnið 2017.is og Hið íslenska bókmenntafélag hafa gefið út greinasafnið Áhrif Lúthers. Siðaskipti, samfélag og menning í 500 ár, í tilefni þess að 500 ár eru liðin síðan Marteinn Lúther hratt af stað víðtækri þróun á sviði trúar, kirkju, samfélags og menningar í norðanverðri Evrópu með því að birta mótmælagreinarnar 95.

Tuttugu fræðimenn á sviði guðfræði, sagnfræði, bókmenntafræði og málvísinda rita greinar í bókina sem varpa nýju ljósi á ýmsa fleti lútherskrar menningar á Íslandi í sögu og samtíð. Áhrif Lúthers hér á landi hafa löngum verið umdeild en allir eru sammála um að siðbreytingin marki tímamót í sögu Íslands. Í bókinni er fjallað um þessi áhrif Lúthers og hvernig þau birtast, beint og óbeint, á fjölmörgum sviðum samfélags og menningar, sum býsna síðbúin. Höfundar fjalla meðal annars um samfélagslegar breytingar, uppfræðslu og kennsluaðferðir, bókaútgáfu, sálmakveðskap, myndlist, gagnrýni á kirkjuna, kvennabaráttu og kynferðislegan margbreytileika.

Ritgerðirnar tuttugu eiga rætur að rekja til þverfræðilegs rannsóknarverkefnis um áhrif siðbótar og siðaskipta á íslenska kristni, samfélag og menningu er Guðfræðistofnun Háskóla Íslands hleypti af stokkunum af þessu tilefni.

Ritstjórar bókarinnar eru Hjalti Hugason, Loftur Guttormsson og Margrét Eggertsdóttir.

Sjá einnig á hi.is.