Seminör í desember 2012

Efnt verður til tveggja seminara í desember. Hið fyrra verður haldið mánudaginn 10. desember kl. 15:30-17:00. Þá mun guðfræðihópurinn standa fyrir seminari í Menningarsmiðjunni á 3. hæð í Aðalbyggingu (innst á norður gangi). Þá mun sr. Dalla Þórðardóttir fjalla um innihald Leuenberger-samþykktarinnar.

Fimmtudaginn 13. desember kl. 15:30 mun hópurinn um „pólitík, stofnun og eignir“ standa fyrir seminari í stofu 301 í Nýja Garði. Dr. Steinunn Kristjánsdóttir prófessor mun leiða semínarið undir fyrirsögninni ‘Lokun klaustranna og lífsgæði almennings eftir siðaskipti’.

Samfella og rof

Málþingið Samfella og rof verður haldið á vegum þverfræðilegs rannsóknarverkefnis um áhrif siðaskiptanna á kirkju, samfélag og menningu (2107.is). Fjallað verður um samfellu og rof í menningu á mótum miðalda og nýaldar.

Málþingið verður haldið í stofu 225 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands föstudaginn 2. nóvember kl. 13: 30— 16:00.

Dagskrá:

  • Samfella (hinar löngu miðaldir): Dr. Gunnar Harðarson prófessor og Torfi K. Stefánsson Hjaltalín guðfræðingur.
  • Kaffihlé.
  • Rof: Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor og Dr. Vilborg Auður Ísleifsdóttir sagnfræðingur.
  • Almennar umræður.
  • Heimasíða verkefnisins kynnt.

Málþingsstjóri er Dr. Margrét Eggertsdóttir rannnsóknarprófessor á Árnastofnun. Málþingið er öllum opið.

Þverfaglegt rannsóknarverkefni um áhrif siðaskiptanna á kirkju, samfélag og menningu í 500 ár

Árið 2017 verður þess minnst að 500 ár verða liðin frá upphafi lúthersku siðaskiptanna en þau hafa sett mark sitt ekki aðeins á trúar- og kirkjulíf í Evrópu og víðar um heim heldur jafnframt menningu, samfélag og jafnvel stjórnmál.

Í tilefni af þessum tímamótum hefur Guðfræðistofnun HÍ stofnað til þverfaglegs rannsóknarverkefnis um áhrif siðaskiptanna á kirkju, samfélag og menningu í 500 ár. Felur það í sér rannsóknir á vettvangi guðfræði, sagnfræði, félagsfræði og fleiri sviðum hug- og félagsvísinda, sem og þverfræðilegar rannsóknir af ýmsum toga. Markmiðið með verkefninu er að koma á víðtæku samstarfi þeirra sem áhuga hafa á slíkum rannsóknum, gangast fyrir málþingum, málstofum og semínörum, sem og stuðla að útgáfu.

Nú tengjast alls 38 einstaklingar verkefninu.